Saga Kiwanis

Saga Kiwanis

Saga Kiwanis 

1. Staðreyndir um Kiwanishreyfinguna
Kiwanishreyfingin var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum þann 21.janúar 1915. Þann 1.nóvember 1916 var fyrsti klúbburinn stofnaður í Kanada í Hamilton í Ontarioríki. Sama ár var heitið "Kiwanisklúbbur" tekið upp á fundi í Cleveland í Ohio (USA). Átta árum síðar var heitinu breytt í "Kiwanis International" (Alþjóðahreyfing Kiwanisfélaga) og þá var stofnskrá sú og lög staðfest, sem gilda enn í dag, svo og meginmarkmiðin sex. Kiwanishreyfingin óx jafnt og þétt, bæði í Bandaríkjunum og Kanada, í nær hálfa öld áður en ákveðið var að breiða hana út til annarra heimsálfa og þjóða, en það var árið 1961.

Árið 1962 var fyrsti klúbbur utan Bandaríkjanna og Kanada stofnaður, en það var í Mexíco og skömmu síðar var annar stofnaður á Bahamaeyjum. Árið 1963 voru 7 klúbbar stofnaðir í Evrópu, sá fyrsti 25. febrúar í Vínarborg í Austurríki. Fyrsti klúbburinn á Norðurlöndum var stofnaður 10.janúar 1964 í Osló í Noregi og fjórum dögum síðar var komið að Íslandi, en þá var Kiwanisklúbburinn Hekla stofnaður í Reykjavík og var hann 9. klúbburinn sem stofnaður var í Evrópu.

Kiwanis á Íslandi
Tveimur árum síðar eða 31.mars 1966 var annar klúbbur stofnaður en það var Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík. Þar með má segja að Kiwanishreyfingin hafi náð fótfestu á Íslandi og voru fjölmargir klúbbar stofnaðir í kjölfarið. Kiwanisklúbburinn Helgafell sem starfar í Vestmannaeyjum var stofnaður af Kötlu 28.september 1967 og er nú langstærsti Kiwanisklúbbur á Íslandi og þó víðar væri leitað og hefur verið lengi. Félagafjöldi Helgafells starfsárið 1999-2000 er 78 félagar. Kiwanisklúbburinn Harpa var stofnaður 15.júní 1989 og var fyrsti klúbburinn sem eingöngu er skipaður konum.

2. Hvað er Kiwanis
Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu. Ekki síst vinna þeir að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt. Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.

Sem dæmi má nefna aðstoð við ungt fólk eða aldrað, náttúruvernd, þróun félagslegrar aðstöðu og eflingu vináttu og skilnings milli manna og þjóða. En hvert svo sem markmið Kiwanisfélaga er, er þeim öllum sameiginlegur þjónustuviljinn og löngunin til að eignast góða félaga innan klúbbsins síns og Kiwanishreyfingarinnar.

Nokkrar skilgreiningar:

  • Kiwanishreyfingin er þjónustuhreyfing en ekki afþreyingarfélag. Þó geta menn eignast þar góða vini í samvinnu við aðra Kiwanisfélaga um ýmis þjóðþrifa- og framfaramál í hinum sanna Kiwanisanda.
  • Kiwanisfélagar starfa fyrir opnum tjöldum enda er hér ekki um leynilegan félagsskap að ræða. Kiwanisfélagar vilja einmitt gjarnan vekja athygli á störfum sínum til þess að afla sér stuðnings í þjónustustarfi sínu.
  • Kiwanishreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félaganna.
  • Hver klúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi, sem hann starfar í. Kiwanishreyfingin skyldar hvorki klúbba né einstaka félaga þeirra til að taka þátt í neinni sérstakri starfsemi.

Nafnið:
Nafnið "Kiwanis er tekið úr máli indíánaþjóðflokks sem eitt sinn byggði það svæði þar sem Kiwanishreyfingin var stofnuð. Upprunalega hljómaði þetta sem "Nunc Keewanis" í þeirra munni og þýðir nánast "sjálfstjáning". Þetta var stytt í "Kiwanis".

3. Kjörorðin og hin sex megin markmið
Undir kjörorðinu "Við byggjum" hefur Kiwanishreyfingin vaxið og dafnað og orðið víðkunn um allan heim. Undanfarin ár hafa íslensku umdæmisstjórarnir haft að leiðarljósi kjörorðið "Börnin fyrst og fremst" og hefur íslenska hreyfingin unnið að málefnum barna undir þessu kjörorði.

Hin sex megin markmið Kiwanishreyfingarinnar:

  • Að láta andleg og mannleg verðmæti skipa æðri sess, en verðmæti af veraldlegum toga spunnin.

  • Stuðla ber að því að dagleg breytni manna á meðal byggist á hinni gullvægu reglu:
    "Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra".

  • Að beita sér fyrir bættum viðskiptaháttum, starfsháttum og félagslegri hegðun.

  • Að efla borgaralegar dyggðir með góðu fordæmi.

  • Að skapa, með stofnun Kiwanisklúbba, leiðir til þess að menn geti bundist varanlegum vináttuböndum og ósérhlífnir innt af höndum þjónustustörf og stuðlað að betra samfélagi.

  • Að vinna saman að mótun og eflingu heilbrigðs almenningsálits og göfugrar hugsjónastefnu, sem er undirstaða aukinnar ráðvendni, bættrar stundvísi, vaxandi þjóðrækni og bræðralags.

4. Tímamót í Kiwanishreyfingunni

·      Árið 1915. Kiwanishreyfingin er stofnuð 21.janúar  1915. Þann dag var Kiwanisklúbbi nr. 1 í Detroit veitt stofnskjal frá  Michiganríki í Bandaríkjunum.

·      Árið 1916. Fyrsti Kiwanisklúbburinn stofnaður utan Bandaríkjanna í Hamilton, Ontario, Kanada, í nóvember.

·      Árið 1920. Roe Fulkerson fyrsti ritstjóri tímarits Kiwanis, kemur fram með föst einkunnarorð "VIÐ BYGGJUM", sem tekin voru upp formlega árið 1920.

·      Árið 1924. Kiwanismenn taka upp nafnið Alþjóðasamband Kiwanis (Kiwanis International) og markmiðin sex á ársþinginu 1924, sem haldið var í Denver í Colorado ríki í Bandaríkjunum.

·      Árið 1963. Fyrsti klúbburinn stofnaður í Evrópu, í Vín í Austurríki.

·      Árið 1964. Fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslandi, Kiwanisklúbburinn Hekla. Fyrsti klúbburinn stofnaður í Asíu-Kyrrahafi í Manilla á Filippseyjum.

·      Árið 1976. Fyrsti klúbburinn í Afríku stofnaður í maí, í Kano í Nígeríu.

·      Árið 1987. Fulltrúar á ársþingi Alþjóðasambands Kiwanis 1987 samþykkja að taka konur inn í hreyfinguna. Tugir þúsunda kvenna eru nú innan Kiwanishreyfingarinnar og hefur innganga kvenna verið einn helsti vaxtarbroddur hreyfingarinnar undanfarinn áratug.

·      Árið 1995. Áttatíu ára afmæli Kiwanishreyfingarinnar, 21.janúar.

·      Árið 1995. Fyrsti félagi úr íslensku Kiwanishreyfingunni gegnir starfi heimsforseta. Það er Eyjólfur Sigurðsson.

·      Árið 1999. Þrjátíu og fimm ára afmæli Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi 14.janúar.

·      Árið 2004. Fjörutíu ára afmæli Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi 14.janúar.

5. Fjöldi Kiwanisklúbba og félaga
Heildarfjöldi Kiwanisklúbba í heiminum er um 8600 og félagatala þeirra er rúmlega 310 þúsund manns. En ef teknir eru með meðlimir klúbba úr ungliðahreyfingu Kiwanis og fleiri hliðarklúbba hreyfingarinnar eru um 600 þúsund manns tengdir hreyfingunni.
Fjöldi Kiwanisklúbba í umdæminu Ísland-Færeyjar hefur mest orðið 49.  Í dag eru starfandi 42 Kiwanisklúbbar í umdæminu með rúmlega ellefu hundruð félögum.
Lengi vel var Kiwanishreyfingin eingöngu skipuð körlum. En á árinu 1987 var samþykkt á heimsþingi Kiwanis, að leyfilegt væri að taka konur inn í hreyfinguna. Stuttu síðar hófst innganga kvenna í íslensku Kiwanishreyfinguna. Fyrsti Kiwanisklúbburinn sem eingöngu var skipaður konum var stofnaður 1989 en það er Kiwanisklúbburinn Harpa.

6. Sameiginleg verkefni Umdæmisins Ísland-Færeyjar
Stærsta verkefni íslensku Kiwanishreyfingarinnar er sala K-lykilsins sem er landssöfnun. Ágóðinn af verkefninu hefur runnið til styrktar geðsjúkum, undir kjörorðinu "Gleymum ekki geðsjúkum". K-dagur var fyrst haldinn árið 1974 og hefur síðan verið haldinn þriðja hvert ár frá þeim tíma. Tákn dagsins hefur verið K-lykillinn, en það er barmmerki, sem hefur verið selt af Kiwanisfélögum til öflunar fjár til verkefnisins. Í minni bæjarfélögum ganga félagar í hús og selja merkin, en á höfuðborgarsvæðinu hafa menn lagt áherslu á sölu við verslanir og stórar verslunarmiðstöðvar.
Samhliða hafa verið seldir ýmsir táknrænir hlutir til fyrirtækja og einstaklinga, sem merktir eru Kiwanishreyfingunni. Alls hafa safnast ríflega 190 milljónir króna vegna K-daga frá upphafi.
Mjög mikilvægt er að allir Kiwanisfélagar taki þátt í sölu K-lykilsins, til þess að ágóðinn til styrktar geðsjúkum verði sem mestur.

Annað stórt verkefni sem íslenska Kiwanishreyfingin tekur þátt í er alþjóðlegt verkefni sem hófst árið 1993, og er unnið í samvinnu við UNICEF. Það miðar að því að útrýma joð skorti í heiminum fyrir árið 2000. Þetta er gert með byggingu saltverksmiðja í löndum þar sem joðskortur ríkir og er joði bætt í saltið. Joð skortur veldur því meðal annars að mæður fæða andvana eða þroskaheft börn.

Kiwanisklúbbarnir í íslenska umdæminu hafa lagt fé í þetta verkefni frá upphafi í samræmi við markmið hreyfingarinnar "Börnin fyrst og fremst" og hafa nú safnast ríflega 110 þúsund dollarar í þetta verkefni innan íslenska umdæmisins.

Frá stofnun fyrsta íslenska Kiwanisklúbbsins hefur íslensk/færeyska Kiwanishreyfingin veitt 550 milljónum króna til líknarmála á Íslandi og í Færeyjum fram til 1999.

7. Evrópu- og Heimsforsetar
Íslenska Kiwanishreyfingin hefur átt heimsforseta
Eyjólfur Sigurðsson, Hekla í Reykjavík


Íslenska Kiwanishreyfingin hefur átt nokkra félaga sem hafa orðið Evrópuforsetar.

Þeir eru:

Páll H. Pálsson, Kötla í Reykjavík

Bjarni B.Ásgeirsson, Nes á Seltjarnarnesi

Eyjólfur Sigurðsson, Hekla í Reykjavík

Þorbjörn Karlsson, Nes á Seltjarnarnesi

Ævar Breiðfjörð, Jörfi í Reykjavík.

Ástbjörn Egilsson, Esja í Reykjavík.

Einn félagi úr íslensku Kiwanishreyfingunni hefur gengt starfi heimsforseta. Það er Eyjólfur Sigurðsson, sem var heimsforseti starfsárið 1995-1996, en hann er nú framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Kiwanishreyfingarinnar í Evrópu.

8. Kiwanisfréttir
Kiwanisfréttir er blað sem Kiwanishreyfingin í íslenska umdæminu gefur út þrisvar sinnum á ári. Í Kiwanisfréttum birtast fréttir og tilkynningar frá umdæmisstjórn, pistlar frá umdæmisstjóra og fréttir frá klúbbunum í íslenska umdæminu. Kiwanisfréttir eru kjörinn vettvangur til að koma fréttum af starfi klúbbanna á framfæri en einnig ágætur vettvangur til skoðanaskipta innan hreyfingarinnar.

Nýjustu færslur

Blog Message

Ferðamálaráð Vestmannaeyja á fundi hjá Helgafelli !

Forseti setti fund kl 19:30 og bauð félaga og gesti velkomna til fundar og sagði frá dagskrá fundarins og þá sérstaklega aðalgestum kvöldsin..
Blog Message

Óvissufundur !

Föstudaginn 1 mars var okkar árlegi Óvissufundur haldinn og var heildarfjöldinn 45 manns sem mættu tímanlega eða um hálf sjöleytið niður í..
Blog Message

Almennur fundur Magnús Bragason kynnir Puffin run.

Almennur fundur fór fram fimmtudaginn 15 febrúar en góð mæting var á þennann fund og eins og venja er á almennum fundum eru leyfðir gestir. K..
Blog Message

Erindi fra Laxey á fundi 1 febrúar.

Fimmtudaginn 1 febrúar var haldinn Almennur fundur hjá okkur Helgafellsfélögum og að venju á svona fundi voru leyfðir gestir og fyrirlesari fen..
Blog Message

Jólafundur Helgafells!

Síðastliðinn laugardag 9. desember var haldinn jólafundur klúbbsins, en þessi fundur okkar er ávalt hefðbundinn og hátíðlegur. Eftir að fo..
Meira...