Kirkjudagur Kiwanis í upphafi aðventu

Kirkjudagur Kiwanis í upphafi aðventu


Helgafellsfélagar fjölmenntu til Landakirkju fyrsta sunnudag í aðventu en þessi dagur hefur verið kirkjudagur Kiwanismanna í Eyjum til fjölda ára. Forseti Helgafells, Magnús Birgir Guðjónsson las fyrri ritningarlesturinn og forseti Sinawik, Una Þóra Ingimarsdóttir, las pistilinn. Einn af fyrrum forsetum Helgafells, sr. Kristján Björnsson, þjónaði með sr. Guðmundi Erni Jónssyni, og las guðspjallið. Hátt á annað hundrað manns tóku þátt í messunni og áttu Kiwanismenn góðan part í þessari kirkjusókn. Við messuna sungu Kór Landakirkju og Stúlknakórinn.
Eftir messu var vöffluhlaðborð Kvenfélags Landakirkju, basar og hlutavelta, en þess má geta að meðal félagskvenna þar er líka að finna Sinawikkonur líkt og í kirkjukórnum. Annars var mikið um að vera í Kiwanisklúbunum þessa helgi því þá fór einnig fram sala á jólasælgæti með því að félagar gengu fyrir hvers manns dyr í bænum. Það má því með sanni segja að þetta hafi verið Kiwanis-helgi að öllu samanlögðu. Verða félagarnir sennilega fegnir að geta svo loksins sest niður næsta laugardag, en þá er jólafundur Kiwanis og Sinawik, og er það jafnan einn hátíðlegasti fundur ársins.