Heimsókn á Hraunbúðir

Heimsókn á Hraunbúðir


Að morgni Aðfangadags mættu félagar í Helgafelli niður í Kiwanihús í tilefni árlegrar heimsóknar á Hraunbúðir Dvalarheimili aldraðra og Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, til að færa heimilisfólki og sjúklingum smá jólaglaðning.

Þegar á Hraunbúðir var komið flutti forseti Kristleifur Guðmundsson smá erindi og síðan söng ungur tenór Alexander Jarl sonur Þorsteins Viktorssonar félaga okkar eitt lag fyrir heimilisfólk, og er ekki hægt að segja annað að þarna fer næsti stórtenór okkar Íslendinga. Sigurfinnur Sigurfinnsson las síðan úr jólaguðspjallinu og að lokum sungu félagar Heims um ból við undirleik Svavars Steingrímssonar. Að venju voru tveir vaskir jólasveinar með í för og sáu þeir um að afhenda sælgætisöskjur frá Kiwanis.
Síðan var haldið á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og þar var afhent jólasælgæti til sjúklinga, og að lokum var félögum boðið upp á veitingar hjá Bryta Heilbrigðisstofnunarinnar. Að lokum voru heimilisfólki á Sambýli fatlaðra afhentar sælgætisöskjur og að þessu verkefni loknu var kominn mikill jólaandi yfir Helgafellsfélaga og gott að koma heim til jólahalds að loknu góðu verki.

Myndir frá Heimsókn á Hraunbúðir eru inni á myndasíðu.