Vorfagnaður Sinawik

Vorfagnaður Sinawik


Í gærkvöldi var Vorfagnaður Sinawik haldinn í Kiwanishúsinu og var þar mikið um dýrðir. Þetta er nú vorboðinn hjá okkur félögunum þegar eiginkonur okkar halda þennann vorfagnað sem var glæsilegur í alla staði eins og ávalt.

Jarl Sigurgeirsson var veislustjóri og stjórnaði m. a. fjöldasöng, Leikfélag Vestmannaeyjar sýndi atriði úr Hárinu sem vakti mikla lukku hjá gestum vorfagnaðar. Grímur Kokkur sá um að framreiða frábæra máltíð og margt var gert sér og öðrum til skemmtunar. Að venju fengu Sinawikkonur gjöf frá Helgafellsfélögum sem Gísli Valtýsson forseti afhendi og Guðrún Helga forsæta Sinawik veitti viðtöku, og síðan og ekki síst sá hljómsveitin Dans á Rósum um að leika fyrir dansi fram á nótt.

Myndir sem Egill Egilsson tók í forföllum Tómasar fyrir heimasíðu eru inni á myndasíðunni, og þökkum við Agli fyrir greiðann.