Styrktarverkefni hjá Helgafelli

Styrktarverkefni hjá Helgafelli


Kiwanisklúbburinn Helgafell hefur undanfarna mánuði styrkt börn sem æfa íþróttir undir merkjum ÍBV og þurfa á gleraugum að halda. Verkefnið virkar þannig að foreld­rar, eða forráðamenn barnanna, fylla út umsóknareyðublað á skrifstofu ÍBV-íþróttafélags. Viðkom­andi kaupa svo sérstök íþrótta­gleraugu við hæfi fyrir barnið, en Helgafell greiðir 25 þús­und krónur af kostnaðarverði. Ekki er um að ræða beinan peningastyrk, heldur greiðir Helgafell styrkinn beint til gleraugnafyrirtækjanna Plús/mínus og Sjón og því lækkar kostnaður foreldranna sem því nemur.
Alls hafa sjö börn notið þessa veglega verkefnis Kiwanisklúbbsins. Það gefur auga leið að öryggi barna er mun betra þegar þau æfa með sérhönnuð íþróttagleraugu, en ef þau væru með hefðbundin gleraugu. Það er því ekki bara kostnaðarþátt­urinn sem minnkar við framlag Kiwanismanna, heldur eykst einnig öryggisþátturinn.
 
Geir Reynisson, félagi í Helgafelli átti hugmyndina að verkefninu en hann segir almenna ánægju með það. „Ég heyrði t.d. í einni mömm­unni sem sagði að sonur sinn hefði eyðilagt þrenn venjuleg gleraugu við æfingar í viðkomandi íþrótt. En nú á hann íþróttagleraugu sem eru allt að því óbrjótanleg og auk þess mun öruggari og betri fyrir börnin, því gleraugun eru kúpt og því er sjónsviðið mun breiðara en í venju­legum gleraugum. Við vonumst til að fleiri nýti sér þessa þjónustu okkar en við munum einnig bjóða iðkendum KFR á Hvolsvelli þennan styrk, enda eru þau börn einnig að spila undir merkjum ÍBV. Ég vil bara ítreka það að foreldrar og forráðamenn fari réttu boðleiðina, fylli út umsókn á skrifstofu ÍBV, áður en kaupin eiga sér stað,“ sagði Geir að lokum.